Erlent

Réðust inn í barnaþorp SOS

Uppreisnarmenn í Mið-Afríkulýðveldinu ruddust inn í SOS-barnaþorpið í Bangui. Engan sakaði en börnin 110 voru afar skelkuð. Mynd/SOS
Uppreisnarmenn í Mið-Afríkulýðveldinu ruddust inn í SOS-barnaþorpið í Bangui. Engan sakaði en börnin 110 voru afar skelkuð. Mynd/SOS
Vopnaðir menn úr hópi uppreisnarmanna réðust inn í SOS-barnaþorpið í Bangui í Mið-Afríkulýðveldinu í gær í leit að vopnum.

Ekkert barnanna 110 sem búa í þorpinu sakaði en þau eru á öllum aldri. Fjögur barnanna eiga íslenska styrktarforeldra.

Mennirnir fundu að sjálfsögðu engin vopn, en tóku fjóra bíla, tölvubúnað og smápeninga áður en þeir héldu á brott.

Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS-barnaþorpa á Íslandi, sagði að allir hefðu verið mjög skelkaðir. „Þessi börn hafa þegar gengið í gegnum mikið og síðan dynur þetta yfir. Þau munu ná sér þótt það muni taka tíma. Þau hafa öll SOS-mæður sem munu nú ekki gera neitt annað næstu daga en að halda utan um þau og ræða við þau.“

Ragnar segir uppákomur sem þessar ekki algengar, en þó hafi það gerst í Suður-Súdan og Sómalíu, en í þeim tilfellum hafi verið búið að flytja börnin á öruggan stað. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×