Erlent

Þingið felldi innistæðuskattinn

Mótmæli fyrir utan þinghúsið „Kýpur segir nei“ stendur á mótmælaspjaldinu.fréttablaðið/AP
Mótmæli fyrir utan þinghúsið „Kýpur segir nei“ stendur á mótmælaspjaldinu.fréttablaðið/AP
Frumvarp um skatt á bankainnistæður var fellt í atkvæðagreiðslu á Kýpurþingi síðdegis í gær. Alls voru 36 þingmenn á móti, nítján sátu hjá en enginn studdi frumvarpið.

Þar með hefur þingið hafnað skilmálum Evrópusambandsins, sem krafðist þess að Kýpverjar kæmu með 5,8 milljarða evra framlag á móti tíu milljarða neyðaraðstoð til að bjarga bönkum landsins frá falli.

Hundruð mótmælenda höfðu safnast saman fyrir utan þinghúsið í Nikósíu og fögnuðu ákaft þegar niðurstaðan lá fyrir. Fljótlega fór mannfjöldinn að syngja þjóðsönginn.

Kýpurstjórn þarf nú að finna nýja leið til að útvega mótframlag sitt til að fá neyðaraðstoðina frá ESB. Takist það ekki eiga bankarnir sér varla viðreisnar von og ríkissjóður fer í greiðsluþrot.

Evrópusambandið hafði fallist á þau áform Kýpurstjórnar að innheimta skatt af innistæðum í bönkunum en samkvæmt frumvarpinu, sem borið var undir þingið í gær, átti að hlífa lægstu innistæðunum.

Rússneskir auðjöfrar hafa flykkst þangað með fé sitt og leikur grunur á að margir þeirra notfæri bankana á Kýpur til peningaþvættis.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×