Erlent

Stoltir af bandalagi við Ísraela

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti er staddur í Ísrael, en í dag er fyrsti dagur opinberrar heimsóknar hans til landsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem forsetinn heimsækir landið í forsetatíð sinni, og á flugvellinum í Tel Aviv biðu hans Shimon Peres forseti Ísrael, og Benjamín Netanyahu forsætisráðherra. Þjóðsöngvar beggja þjóða voru leiknir og því næst tóku þjóðhöfðingjarnir til máls.

Sagði Obama Ísraela „helstu bandamenn og bestu vini Bandaríkjanna". Bandalag þjóðanna myndi vara að eilífu. Sagði hann einnig að „friður yrði að komast á í hinu heilaga landi".

Shimon Peres sagði að án siðferðislegrar handleiðslu Bandaríkjamanna væri heimurinn verri, og að án vináttu við Bandaríkin ætti Ísrael undir högg að sækja.

Obama mun funda með Netanyahu síðar í dag, og á morgun heimsækir hann Vesturbakkann þar sem hann mun hitta Mahmoud Abbas, forseta Palestínu.

Ísraelskur almenningur er ekki sérlega ánægður með Obama, enda hefur hann ekki ræktað vinabönd þjóðanna jafn vel og margir forvera sinna.

Hafa samskipti Obama og Netanyahu verið stirð í gegn um tíðina og fréttaritari Channel 10 í Ísrael greindi frá því í útsendingu stöðvarinnar frá flugvellinum að þeir „þoli ekki hvor annan".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×