Erlent

Norskur olíuborpallur rýmdur vegna hættu á að honum hvolfdi

Töluverð hætta skapaðist á norskum olíuborpalli í nótt þegar leki kom að honum. Um tíma var óttast að pallinum myndi hvolfa og var öll áhöfn hans 63 menn flutt í land.

Borpallur þessi lá við akkeri í höfninni  í Asköy í Hörðalandi. Um fjögurleytið í nótt að staðartíma kom mikil slagsíða á hann vegna vatnsleka og ákveðið var að flytja áhöfn hans í land. Það gekk snurðulaust utan að einn af áhöfninni slasaðist lítillega.

Þegar björgunarmenn með öflugar dælur komu á staðinn var hallinn á pallinum orðinn um fjórar gráður. Dælur höfðu þó ekki undan vatnslekanum í fyrstu.

Kafarar voru kallaðir til og fundu þeir gat á botni pallsins sem vatnslekinn stafaði frá og tókst þeim að loka því. Lögreglan í Hörðalandi sendi síðan tilkynningu um hálf sex leytið í morgun að dælurnar hefðu undan og að borpallurinn væri byrjaður að rétta sig af.

Pallur þessi sem er af gerðinni Island Innovatur er nýr af nálinni og verið var að ganga frá síðustu prófunum á honum en senda átti pallinn út á Norðursjó um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×