Erlent

Veikindi vekja óvissu um framtíð Íraks

JAlal Talabani og David Petraeus Forseti Íraks ásamt þáverandi yfirmanni bandaríska herliðsins á fundi í Bagdad árið 2010. nordicphotos/AFP
JAlal Talabani og David Petraeus Forseti Íraks ásamt þáverandi yfirmanni bandaríska herliðsins á fundi í Bagdad árið 2010. nordicphotos/AFP
Jalal Talabani, forseti Íraks, liggur á sjúkrahúsi í Bagdad eftir að hafa fengið heilablóðfall. Þar með er komin upp töluverð óvissa um framtíð landsins, nú þegar ár er liðið frá því bandaríski herinn fór heim.

Forsetaembættið sjálft er að vísu valdalítið, en Talabani hefur tekist þokkalega upp við að miðla málum milli andstæðra fylkinga, þótt átök séu enn nokkuð tíð, einkum milli súnní-múslima og sjía-múslima.

Sjálfur er Talabani Kúrdi, og hefur tekið virkan þátt í samningaviðræðum milli stjórnarinnar og minnihluta Kúrda í norðanverðu landinu. Nokkrir háttsettir embættismenn, þar á meðal Nouri al-Maliki forsætisráðherra, hafa heimsótt Talabani á sjúkrahúsið, sem er umkringt vopnuðum vörðum.

Þótt Bandaríkjaher hafi farið frá Írak fyrir ári eru Bandaríkjamenn enn býsna áberandi þar.

Bandaríska sendiráðið er í mikilli byggingu í miðborg Bagdad og bandarískir embættismenn fara reglulega í heimsókn til landsins.

Þá eru bandarísk fyrirtæki stöðugt á höttunum eftir íraskri olíu. Svo er enn hópur bandarískra hermanna í Írak, en hlutverk þeirra er einkum að sjá um þjálfun íraskra hermanna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×