Erlent

Átökin aldrei verið harðari

Barist í rústunum Uppreisnarmaður vopnaður sprengjuvörpu í borginni Aleppo.Fréttablaðið/AP
Barist í rústunum Uppreisnarmaður vopnaður sprengjuvörpu í borginni Aleppo.Fréttablaðið/AP
Sýrlenski stjórnarherinn sendi í gær smáskilaboð í farsíma flestra íbúa landsins þar sem skorað var á uppreisnarherinn í landinu að gefast upp, og sagt að barátta hans væri hvort eð er töpuð.

Stjórnarherinn hefur áður reynt að hafa sálræn áhrif á uppreisnarmenn með svipuðum hætti, en litlar líkur eru á að uppreisnarherinn taki minnsta mark á þessum skilaboðum.

Pattstaða hefur verið í átökunum vikum saman, en uppreisnarherinn gerði á miðvikudaginn harða árás á höfuðstöðvar stjórnarhersins í höfuðborginni Damaskus.

Tvær bílasprengjur sprungu við höfuðstöðvarnar, með þeim afleiðingum að byggingin stóð í ljósum logum. Í kjölfarið hófust skotbardagar, sem stóðu í þrjár klukkustundir. Stjórnvöld segja að fjórir stjórnarhermenn hafi látist og fjórtán manns særst.

Átökin hafa harðnað jafnt og þétt. Á miðvikudaginn kostuðu þau meira en 300 manns lífið, en aldrei hafa jafn margir látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi frá því átökin hófust.

Sameinuðu þjóðirnar segja að tvö til þrjú þúsund flóttamenn fari yfir til nágrannalandanna á degi hverjum. Alls eru nærri 300 þúsund flóttamenn frá Sýrlandi á skrá hjá Sameinuðu þjóðunum, eða bíða skráningar í nágrannalöndunum.

- gb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×