Enski boltinn

Fletcher: Berst við sjúkdóminn á hverjum degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fletcher í leik með skoska landsliðinu í síðasta mánuði.
Fletcher í leik með skoska landsliðinu í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Darren Fletcher, leikmaður Manchester United, segir að hann hái daglega baráttu við sáraristilbólgu en hann greindist með sjúkdóminn í fyrra.

Hann hefur misst af mörgum leikjum vegna sjúkdómsins en um tíma var óttast að hann myndi neyðast til að leggja skóna á hilluna. Hann neitaði að gefast upp og hefur spilað fimm leiki með United á tímabilinu til þessa.

Ekki er búist við öðru en að hann muni spila með United gegn portúgalska liðinu Braga í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

„Sjúkdómurinn er ólæknandi og það er eitthvað sem ég þarf að lifa með," sagði hann í samtali við enska fjölmiðla.

„Hver dagur er ný barátta fyrir mig. Ég þarf að passa hvað ég borða og taka lyf til að halda einkennunum niðri."

„En ég bjóst ekki við því að geta byrjað að spila aftur svona snemma. Það er kannski reynslunni að þakka. Ég er ekki jafn skarpur og ég var en ég get verið fljótur að bregðast við því ég þekki aðstæðurnar."

„Þetta er allt að koma hjá mér. Ég hefði kannski ekki trúað því í júní eða júlí að ég myndi tala svona í nóvember en mér finnst þetta ganga vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×