Erlent

Minnast einstæðs atburðar úr loftbardaga árið 1943

Charlie Brown ásamt áhöfn sinni fyrir flugið örlagaríka til Bremen.
Charlie Brown ásamt áhöfn sinni fyrir flugið örlagaríka til Bremen.
Tvær fjölskyldur, önnur bandarísk og hin þýsk, munu í vikunni minnast einstæðs atburðar í loftbardaga í seinni heimsstyrjöldinni árið 1943.

Það var 20.desember þetta ár að Charlie Brown var að fljúga sundurskotinni B-17 sprengjuflugvél sinni áleiðis til Bretlands eftir velheppnaða árás á skotfæraverksmiðju í Bremen. Einn af áhöfninni var fallinn og sex aðrir illa særðir þar á meðal Brown eftir að 15 þýskar orrustuvélar höfðu ráðist á þá yfir Bremen.

Skyndilega rennir þýsk orrustuvél upp að hlið B-17 vélarinnar og Brown taldi daga sína talda. Þýski flugmaðurinn var hinsvegar að benda Brown á hvernig hann kæmist sem fyrst út úr þýskri lofthelgi og í skjól til Svíþjóðar. Síðan flaug hann á brott. Brown tókst hinsvegar að lenda á hinni illa löskuðu vél sinni í Bretlandi.

Þýski flugmaðurinn, Franz Stigler var ein af hetjum þýska flughersins og hafði skotið niður 22 flugvélar Bandamanna. Hann sagði síðar að hann hafði séð ástandið um borð í B-17 vélinni og því ákveðið að ráðast ekki frekar á hana. Fyrir sér hafi B-17 vélin verið eins og maður í fallhlíf.

Þeir Brown og Stigler hittust árið 1987 og urðu miklir vinir æ síðan. Þeir létust báðir með sex mánaða millibili árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×