Erlent

Stradivarius fiðla lenti meðal óskilamuna á lögreglustöð

Sá einstæði atburður átti sér stað í vikunni að Stradivarius fiðla lenti meðal óskilamuna á lögreglustöð í borginni Bern í Sviss.

Forsaga málsins er sú að eigandi fiðlunnar hafði lánað han vini sínum sem er tónlistarmaður. Sá hafði svo aftur gleymt henni í lest á leið til Bern. Þegar tónlistarmaðurinn áttaði sig á því að hann hafði gleymt fiðlunni varð uppi fótur og fit og mikill fjöldi lögreglumanna og öryggisvarða á lestarstöðinni leituðu að fiðlunni en án árangurs.

Hinsvegar sást í öryggismyndavél að annar farþegi gekk með fiðluna undir hendinni út úr lestinni. Það reyndist vera heiðarlegur maður sem skilaði fiðlunni inn á næstu lögreglustöð þar sem hún var sett meðal óskilamuna. Fiðlan er nú aftur komin í hendur eigenda síns.

Stradivarius fiðlur eru þær dýrustu í heiminum en aðeins er vitað um 600 slíkar í dag. Þær kosta yfirleitt fleiri hundruð milljónir eða jafnvel yfir milljarð króna stykkið. Þannig má nefna að Stradivarius fiðla sem seld var á uppboði til styrktar fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Japan í fyrra seldist á um 1,7 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×