Erlent

Mesta tækniafrek mannkyns í nánd

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Mars.
Mars. mynd/NASA
Vitbíllinn Curiosity nálgast nú Mars óðfluga. Farið mun brjóta sér leið í gegnum gufuhvolf rauðu plánetunnar í nótt. Komist farið á leiðarenda er um mesta tækniafrek mannkynssögunnar að ræða.

Meginverkefni Curiosity er að leita að ummerkjum eftir líf á Mars. Vitbíllinn er hlaðinn háþróuðum tækjabúnaði en honum verður beitt til rýna í jarðveg plánetunnar. Þá vonast vísindamenn til þess að farið muni varpa ljósi á aðstæður á Mars fyrir 3 til 4 milljörðum ára.

Curiosity mun lenda í hinum risavaxna Gale-gíg en hann er nokkuð suður af miðbaug plánetunnar.

Vitbíllinn, sem er á sex dekkjum, er 900 kíló að þyngd. Hann er margfalt stærri en fyrirrennarar sínir, þeir Spirit og Opportunity. Þá er bíllinn þrír metrar að lengd.

Áætlað er að lendingin muni eiga sér stað klukkan 05:31 í nótt. Hægt er að nálgast beina útsendingu frá stjórnstöð NASA hér.

Hér má sjá lendingaráætlun NASA fyrir Curiosity.mynd/NASA
Lendingarfasinn hefst í 125 kílómetra hæð yfir Mars. Þá brýtur geimhylkið sem ber Curiosity sér leið í genum gufuhvolf plánetunnar. Þá fyrst mun farið finna fyrir þyngdarafli plánetunnar og verður hraðaaukningin í kjölfarið gríðarleg.

Þegar mest lætur mun farið falla í gegnum gufuhvolfið á 21 þúsund kílómetra hraða. Það er síðan verkefni vísindamannanna að hægja á farinu - þeir hafa um það bil sex mínútur til að gera það.

Loks mun aftari hluti hylkisins losna frá farinu og fellur það áfram í átt að Mars. Þá losnar fallhlíf og Curiosity sígur niður úr farinu. Vitbíllinn losnar, fellur niður á yfirborðð og geimkraninn flýgur á brott.

Hægt verður að fylgjast með lendingunni í gegnum vefsíðu NASA. Útsendinguna má nálgast hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×