Erlent

Setja saman viðbragðsáætlanir vegna sólgosa

mynd/NASA
Búist er við að Sólin muni ná næsta sólblettahámarki í maí 2013. Innan tveggja ára mun síðan tíu ára skeiði sólvirkni ljúka. Sólblettir eru virk svæði á Sólinni þar sem segulsviðið er afar sterkt. Mikil orka hleðst upp við blettina, þegar hún losnar úr læðingi verður sólgos til. Þá þeytast hlaðnar agnir út í alheiminn og skella öðru hverju á Jörðinni.

Þessar agnir eru í senn tilkomumiklar og skaðlegar. Oftast nær birtast þær sem norður- og suðurljós en stöku sinnum geta þær haft truflandi áhrif á segulsvið jarðar. Í verstu tilfellum geta sólgosin lamað fjarskipta- og rafveitukerfi.

Mike Hapgood, stjarneðlisfræðingur, fer fyrir hópi vísindamanna sem unnið hafa að viðbragðsáætlun vegna öflugra sólgosa, í samstarfi við þjóðarleiðtoga. Hapgood segir yfirvöld víðsvegar um heim nú skilgreina sólgos sem náttúruhamfarir á borð við flóðbylgjur og eldgos.

Sveiflan sem sólin gengur nú í gegnum þykir veikari en tíðkast hefur. Vísindamennirnir eiga þannig ekki von á að sólgosin muni valda stórfelldu tjóni á jörðinni. En eins og með allt annað er betra að hafa varann á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×