Enski boltinn

Eiður: Leið strax vel inn á vellinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári reynir að fylgja eftir vítaspyrnu Clint Dempsey.
Eiður Smári reynir að fylgja eftir vítaspyrnu Clint Dempsey. Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen segir í viðtali á heimasíðu Fulham að grannaslagurinn við Chelsea í gær hafi verið frábært tilefni fyrir frumraun sína með félaginu á heimavelli.

Liðin skildu jöfn í markalausu jafntefli en Eiður Smári átti fína innkomu á síðustu tíu mínútum leiksins. Innkoma hans og Zoltan Gera gerði það að verkum að Fulham reyndi mikið á Chelsea síðustu mínúturnar.

Liðið hefði getað tryggt sér öll stigin þrjú hefði Clint Dempsey skorað úr vítaspyrnunni sem hann fiskaði í uppbótartíma en Petr Cech varði frá honum.

Eiður Smári var stutt frá því að ná frákastinu en allt kom fyrir ekki.

„Það var frábær stemning á vellinum og það er frábært að fá sínar fyrstu mínútur á heimavelli í grannaslag eins og þessum. Það er þó synd að við skyldum ekki vinna leikinn í lokin," sagði Eiður Smári.

„Mér fannst leikmenn vinna mjög vel í leiknum, sérstaklega í varnarleiknum og þetta var frábær reynsla þegar á heildina er litið."

„Við leyfðum þeim þó að koma helst til of langt inn á okkar eigin vallarhelming á köflum en við vorum búnir að leggja mikið á okkur og vorum þreyttir."

„En við sóttum á þá síðustu tíu mínútur leiksins og þá fengum við tækifæri til að vinna leikinn. Það var mikil synd að við skyldum ekki skora úr vítinu en við erum ánægðir með stigið. Það hefði þó verið skemmtilegt að taka öll stigin þrjú."

„Mér leið vel um leið og ég kom inn á völlinn. Ég komst strax inn í leikinn, við héldum boltanum vel og færðum liðið framar."

„Mér líst mjög vel á þessi félagaskipti hjá mér," bætti hann við en hann er í láni hjá Fulham frá Stoke til loka tímabilsins.

„Ég hef notið mín síðan ég kom til Fulham og ætla að nýta mér þann tíma sem ég er hjá félaginu til fulls - hvort sem það verður til styttri eða lengri tíma."

Fulham á næst bikarleik gegn annað hvort Wigan eða Bolton um næstu helgi. „Nú höfum við nokkra daga til að hvíla okkur og tel ég að við eigum góðan möguleika á því að komast enn lengra í bikarnum."

„Við þurfum ekki að skammast okkur fyrir jafntefli gegn Chelsea, sérstaklega þar sem að við áttum möguleika á að vinna leikinn."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×