Íslenski boltinn

Stjörnumenn hafa hækkað sig um heilt Íslandsmót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson er einn þeirra leikmanna sem hafa farið fyrir Stjörnunni síðustu þrjú árin.
Halldór Orri Björnsson er einn þeirra leikmanna sem hafa farið fyrir Stjörnunni síðustu þrjú árin. Fréttablaðið/Stefán
Stjörnumenn komu mikið á óvart í sumar þegar litið er á spá forráðamanna, fyrirliða og þjálfara fyrir mót. Stjörnuliðinu var spáð 10. sætinu en var síðan aðeins hárbreidd frá því að ná þriðja sætinu, sem hefði gefið sæti í Evrópukeppni.

Þetta er ekki fyrsta sumarið sem Stjörnumenn koma á óvart undir stjórn Bjarna Jóhannssonar því þegar betur er að gáð kemur í ljós að Garðbæingar hafa hækkað sig samanlagt um tólf sæti síðustu þrjú sumur ef lokastaða liðsins er borin saman við spána í byrjun móts. Stjörnuliðinu var spáð 12. sæti 2009 (7. sæti), 9. sæti 2010 (8. sæti) og loks 10. sæti í ár (4. sæti).

Eyjamenn koma næstir (upp um 9 sæti) en Keflavík (niður um 7 sæti), Valur (-6) og Grindavík (-5) hafa hins vegar valdið mestum vonbrigðum undanfarin þrjú tímabil ef tekið er mið af þessari tölfræði.

Gengi liða 2009-2011

Gengi liða á Íslandsmótinu út frá spám fyrir Íslandsmótin 2009, 2010 og 2011:

Stjarnan: +12 sæti

ÍBV: +9

Fylkir: +4

Breiðablik: 0

KR: –1

FH: –1

Fram: –2

Grindavík: –5

Valur: –6

Keflavík: –7

(Aðeins lið sem voru með öll þrjú árin.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×