Íslenski boltinn

Fylkismenn líklega með táning í markinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fjalar Þorgeirsson, markvörður Fylkis, má ekki spila með liðinu í bikarleiknum gegn FH á fimmtudaginn.
Fjalar Þorgeirsson, markvörður Fylkis, má ekki spila með liðinu í bikarleiknum gegn FH á fimmtudaginn. Fréttablaðið/Pjetur
Ísak Björgvin Gylfason, átján ára markvörður úr 2. flokki Fylkis, mun að öllum líkindum standa í marki Fylkis þegar liðið mætir bikarmeisturum FH í 32-liða úrslitum Valitor-bikarkeppninnar annað kvöld. Fjalar Þorgeirsson verður í banni og Bjarni Þórður Halldórsson er enn meiddur.

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, segir að félagið hafi ekki skoðað þann möguleika að fá markvörð á neyðarláni til félagsins þar sem búið er að loka fyrir félagaskiptagluggann.

„Það gæti orðið ofan á að hann muni spila þennan leik,“ segir Ólafur um Ísak Björgvin.

„Eins og er þá er útlit fyrir það. Þetta er strákur sem hefur verið að standa sig vel með 2. flokki og um að gera að láta á það reyna. Einhvern tímann verður að nota þessa drengi,“ segir hann í léttum dúr.

Bjarni Þórður er með brotinn fingur og er enn í gifsi. Það kemur því ekki til greina að hann spili leikinn gegn FH.

Fylkismenn fengu tvö rauð spjöld í leiknum gegn Breiðabliki á sunnudagskvöldið. Fyrst Valur Fannar Gíslason og svo Fjalar stuttu síðar. Þá meiddist Albert Brynjar Ingason og óvíst hvort hann verður með gegn FH. „Það verður að koma í ljós þegar líður á vikuna en ég er vongóður um að Kjartan Ágúst Breiðdal og Baldur Bett séu að komast á lappirnar, sem og Rúrik Þorfinnsson,“ bætir Ólafur við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×