Enski boltinn

Er 35 ára bið Man. City á enda?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Argentínumaðurinn Carlos Tevez heldur enn í vonina um að geta spilað í dag.nordicphotos/getty images
Argentínumaðurinn Carlos Tevez heldur enn í vonina um að geta spilað í dag.nordicphotos/getty images
35 ára bið Manchester City eftir titli gæti lokið í dag þegar liðið mætir Stoke City í úrslitum ensku bikarkeppninnar á Wembley. Flestir spá Manchester-liðinu sigri í leiknum enda er það með talsvert sterkara lið á pappírnum fræga. Sá pappír telur aftur á móti ekki neitt þegar út á völlinn er komið og það veit Roberto Mancini, stjóri Manchester City.

„Þessi leikur verður erfiðari en leikurinn gegn Manchester United. Stoke er mjög sterkt lið sem erfitt er að eiga við. Það væru mikil mistök að búast við auðveldum leik. Ef við ætlum að ná sigri verðum við að spila vel. Við verðum að vera einbeittir og megum alls ekki gefa færi á okkur,“ sagði jarðbundinn Mancini en hann er þegar búinn að tryggja sínu liði þáttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Við náðum einu markmiði með því að komast í Meistaradeildina. Næsta markmið er að vinna titil. Það er mjög mikilvægt að ná því markmiði sem fyrst og við fáum frábært tækifæri til þess í þessum leik.“

Enska bikarkeppnin nýtur talsvert meiri virðingar í Englandi en ítalski bikarinn fær á Ítalíu. Mancini vann ítalska bikarinn sex sinnum á sínum ferli – tvisvar sem leikmaður og fjórum sinnum sem þjálfari.- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×