Enski boltinn

Bale missir af leiknum gegn City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gareth Bale mun missa af leik Tottenham gegn Manchester City á morgun vegna meiðsla og þeir Luka Modric og Peter Crouch eru mjög tæpir.

Tottenham verður að vinna leikinn til að halda í möguleikann að ná City að stigum í baráttunni um fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og þar með sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Bale fór meiddur af velli þegar að Tottenham gerði 1-1 jafntefli við Blackpool um helgina eftir ljóta tæklingu frá Charlie Adam.

Redknapp sagði reyndar ólíklegt að Bale myndi spila meira með á leiktíðinni en hann meiddist á ökkla. „Það lítur út fyrir að hann sé með slitin liðbönd í ökkla. Ég sé ekki fyrir mér að hann muni spila aftur á tímabilinu,“ sagði Redknapp við enska fjölmiðla

„Það lítur út fyrir að Modric spili ekki og Palacios getur ekki spilað," bætti hann við. „Crouch gat ekki spilað gegn Blackpool þar sem hann er meiddur í baki. Hann sagði mér frá því fyrir leikinn."

„Vonandi nær hann leiknum en það er tæpt. Við verðum bara að sjá til á morgun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×