Enski boltinn

Kranjcar tryggði Tottenham þrjú stig aðra helgina í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niko Kranjcar fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Niko Kranjcar fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty

Niko Kranjcar tryggði Tottenham þrjú stig aðra helgina í röð þegar hann skoraði sigurmark liðsins í 2-1 útisigri á Sunderland í kvöldleiknum í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham náði með þessum sigri þriggja stiga forskoti á Chelsea í baráttunni um fjórða sætið en Chelsea á leik inni á mánudaginn.

Sunderland er hinsvegar áfram í sjöunda sætinu, tveimur stigum á eftir Liverpool. Liðið er búið að tapa þremur leikjum í röð þrátt fyrir að komast yfir í þeim öllum.

Kranjcar skoraði einnig sigurmark Tottenham á móti Bolton um síðustu helgi en það mark kom í uppbóttartíma leiksins. Mark Kranjcar kom aftur á móti 33 mínútum fyrir leikslok.

Bæði þessi sigurmörk Króatans hafa verið af glæsilegri gerðinni því hann skoraði markið sitt í kvöld með óverjandi viðstöðulausu skoti af vítateigslínunni en markið fyrir viku kom með frábæru skoti fyrir utan teig.

Ganamaðurinn Asamoah Gyan kom Sunderland í 1-0 með laglegri afgreiðslu á 11. mínútu en Williams Gallas, varnarmaður Tottenham, var á sama tíma að skipta um skó á hliðarlínunni.

Michael Dawson jafnaði leikinn á 44.mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Niko Kranjcar. Sigurmark Kranjcar kom síðan á 57. mínútu leiksins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×