Enski boltinn

Sir Alex: Væri eins og sjálfsmorð fyrir restina af félögunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United og Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United og Kenny Dalglish, stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var í gær spurður út í þær hugmyndir erlendu eigenda liða ensku úrvalsdeildarinnar að loka ensku úrvalsdeildinni og leggja niður fallbaráttuna í deildinni.

Manchester United, Liverpool, Arsenal, Aston Villa og Sunderland eru öll í eigu Bandaríkjamanna og Asíumenn eiga Manchester City og Blackburn. Atvinnumannadeildirnar í Bandaríkjunum eru allar lokaðar.

„Maður sér þetta gerast í mörgum löndum og ekki bara í Bandaríkjunum. Ég sé samt ekki hvað við mundum græða með þessu. Ef við horfum á b-deildina þá eru þar í það minnsta átta félög með mikla hefð og frábæra sögu. Hvað eigum við að segja við þau félög? Þið getið aldrei aftur spilað í ensku úrvalsdeildinni," sagði Sir Alex Ferguson.

„Ég held að þetta væri sjálfsmorð fyrir restina af deildarkeppninni og þá sérstaklega félögin í b-deildinni. Það væri alveg eins hægt að loka dyrunum alveg. Eina leiðin til að græða peninga og ná metnaðarfullum markmiðum er í ensku úrvalsdeildinni og það má ekki taka það frá félögum eins og Nottingham Forest, Leeds United, Sheffield United og Sheffield Wednesday," sagði Sir Alex.

„Þetta eru allt félög sem mynduðu kjarnann í gömlu 1. deildinni fyrir öllum þessum árum síðan. Það væri mjög óskynsamlagt að loka á þau," sagði Ferguson og það er óhætt að segja að næstum allir sem hafa tjáð sig um þetta mál eru sammála Skotanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×