Enski boltinn

Engar samningaviðræður í gangi milli Grétars Rafns og Bolton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson og Luis Suarez.
Grétar Rafn Steinsson og Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Blaðamaður Bolton News veltir því fyrir sér hvort að íslenski landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson sé á förum frá félaginu. Grétar Rafn var ekki í hópnum um helgina þegar Bolton endaði sex leikja taphrinu með 3-1 sigri á Wigan.

Grétar Rafn og Fabrice Muamba duttu báðir út úr hópnum og Zat Knight var settur á bekkinn. Stjóranum Owen Coyle tókst greinilega að kveikja í mannskapnum því liðið fagnaði langþráðum sigri.

„Það er ekki ég sem tek þá út úr liðinu því það er frammistaða þeirra inn á vellinum sem ræður öllu um það. Ef menn standa sig ekki þá bíða alltaf menn eftir tækifærinu á hliðarlínunni," sagði Owen Coyle aðspurður um fjarveru þessara áður fastamanna í Bolton-liðinu.

Belgíumaðurinn Dedryck Boyata hefur tekið sætið í byrjunarliði Bolton af Grétari Rafni en Boyata kom til Bolton á láni frá Manchester City.

Samingur Grétars Rafns við Bolton rennur út í vor en hann kom til félagsins í janúar 2008. Blaðamaður Bolton News heldur því fram að engar samningaviðræður séu í gangi á milli leikmannsins og Bolton. Grétar Rafn hefur verið mikið meiddur á þessu ári sem hefur einnig háð þessum 29 ára bakverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×