Enski boltinn

Capello: England ekki lengur í heimsklassa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segir að enska landsliðið sé einfaldlega ekki nógu gott til að spila eins og spænska landsliðið.

Þessi tvö lið mætast í vináttulandsleik á Wembley-leikvanginum í Lundúnum á laugardaginn en Capello sagði í viðtali við The Sun í dag að sá tími væri einfaldlega liðinn þar sem hægt væri að bera enska landsliðið saman við bestu lið heims.

„En ég held að við höfum staðið okkur ágætlega,“ sagði hann. „En aðeins þriðjungur leikmanna í ensku úrvalsdeildinni eru frá Englandi og gerir það okkur mjög erfitt fyrir,“ bætti hann við.

„Við erum með góða leikmenn en ekki nógu góða svo að hægt sé að láta liðið spila eins og spænska landsliðið. Það er ekki hægt að láta sig dreyma um einnar snertingar fótbolta ef maður hefur ekki gæðin í það.“

Darren Bent, leikmaður sem vill sanna sig fyrir Capello, segir að það sé erfitt að spila fyrir enska landsliðið. „Það er eins og að maður sé á reynslu hjá félagsliði. Ef ég fæ tækifærið mun ég gera mitt besta og vonandi hanga í liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×