Enski boltinn

Liverpool með beina línu til Úrúgvæ í framtíðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/AP
Úrúgvæmaðurinn Luis Suarez hefur slegið í gegn með Liverpool og í framhaldinu er enska félagið að reyna að gera samning við úrúgvæska félagið Nacional um að Liverpool hafi forkaupsrétt á efnilegustu leikmenn félagsins.

 

Liverpool er þegar búið að kaupa annan leikmann sem er uppalinn frá Nacional en það er miðvörðurinn Sebastian Coates sem kom til Anfield í síðasta félagsskiptaglugga. Suður-Ameríkumennirnir Lucas Leiva og Maxi Rodriguez hafa líka fundið sig vel hjá Liverpool.

„Liverpool ætlar að koma og fylgjast með akademíunni okkar og þeir fengju síðan forkaupsrétt að okkar ungu leikmönnum. Við erum að vinna að því að ganga frá þessum samningi sem fyrst," sagði talsmaður Nacional í samtali við BBC.

Nacional rekur 120 stráka knattspyrnuakademíu og safnar efnilegum leikmönnum allstaðar frá í landinu. Leikmennirnir eru á aldrinum 13 til 20 ára.

Luis Suarez, sem er 24 ára, steig sín fyrstu spor hjá Nacional áður en hann fór til Hollands og spilaði með Groningen og Ajax. 14 leikmenn úr 23 manna hópi Úrúgvæ í Suður-Ameríkukeppninni í sumar komu upp úr unglingastarfi Nacional eða spiluðu einhvern tímann með félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×