Enski boltinn

Roman Pavluychenko falur fyrir rétta upphæð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn Tottenham eru reiðubúnir til að hlusta á tilboð í rússneska framherjann Roman Pavlyuchenko sem hefur lítið sem ekkert spilað með liðinu í upphafi tímabilsins.

Emmanuel Adebayor kom til liðsins á láni frá Manchester City í haust og hefur hann staðið sig vel. Þar að auki hefur Jermain Defoe verið öflugur og því lítið pláss fyrir Pavlyuchenko í liði Tottenham.

Pavlyuchenko kom til Tottenham frá Spartak Moskvu árið 2008 eftir góða frammstöðu með rússneska landsliðinu á EM 2008. Hann hefur aðeins skorað einu sinni með Tottenham á árinu og verið í byrjunarliðinu fjórum sinnum.

„Ef hann vill fara í janúar og við fáum gott tilboð í hann þá myndum við skoða það,“ sagði Harry Redknapp, stjóri Tottenham, í samtali við enska fjölmiðla.

„En ég er þó ekki endilega að reyna að losna við hann. Mér líkar vel við hann enda góð persóna og góður leikmaður. Ég vona að hann geti náð sér á strik og átt gott tímabil.“

„En hann verður að leggja mikið á sig í hverjum einasta leik og sýna meiri stöðugleika. Hann átti ekki frábært undirbúninigstímabil og hefur ekki sýnt nógu mikið á árinu til að verskulda sæti í liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×