Íslenski boltinn

Roy Keane á leið til landsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Keane gæti orðið næsti landsliðsþjálfari Íslands.
Roy Keane gæti orðið næsti landsliðsþjálfari Íslands. Nordic Photos / Getty Images
Roy Keane er á leiðinni til landsins til að skoða aðstæður hjá KSÍ og fylgjast með leik íslenska landsliðsins gegn Kýpur annað kvöld. Hann mun væntanlega svo halda viðræður við íslenska knattspyrnusambandið um að taka að sér starf landsliðsþjálfara karla.

Þetta hefur Vísir eftir heimildum sínum. Leitað var til Eggerts Magnússonar, fyrrums formanns KSÍ, til að koma á sambandi við Keane sem var síðast knattspyrnustjóri Ipswich þar til í janúar á þessu ári.

Hvorki náðist í Geir Þorsteinsson, formann KSÍ, né Þóri Hákonarson framkvæmdarstjóra til að fá viðbrögð við þessu.

Áður þjálfaði hann Sunderland í ensku úrvalsdeildinni en hann er vitanlega þekktastur fyrir afrek sín á knattspyrnuvellinum með Manchester United og írska landsliðinu.

Keane var nítján ára þegar hann gekk til liðs við Nottingham Forest árið 1990. Þar var hann samherji Þorvaldar Örlygssonar, þjálfara Fram, til 1993. Keane var svo í tólf ár hjá United og spilaði síðustu leiki sína með Glasgow Celtic tímabilið 2005-2006.

Ólafur Jóhannesson hefur þjálfað íslenska landsliðið síðan 2007. Tilkynnt var í síðasta mánuði að hann myndi ekki halda áfram í starfinu eftir að samningur hans rennur út um áramótin. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, tilkynnti þá að „leitin væri hafin" að nýjum þjálfara.

Síðasti erlendi þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu var Svíinn Bo Johansson sem hætti árið 1991.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×