Íslenski boltinn

Tryggvi: Draumaúrslit fyrir KR-ingana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson og félagar í ÍBV voru ekki ánægðir með sinn leik í 1-1 jafntefli við Valsmenn á Hásteinsvellinum í dag.

„Ég held að það sé enginn okkar ánægður með þennan leik hjá okkur í dag. Þetta var mjög þungt, við virkuðum þungir og þreyttir. Völlurinn var þungur líka þannig að þetta var mjög erfitt," sagði Tryggvi.

„Við vorum mun betri í fyrri hálfleik. Við ákváðum að bakka í seinni hálfleik og vera meira í skyndiupphlaupunum. Það var eins og það væri ekki kraftur í liðinu til þess að framkvæma það. Við vörðumst svo sem ágætlega og þeir fengu þannig séð ekki mikið af færum," sagði Tryggvi en Valsmenn skoruðu jöfnunarmarkið sitt eftir varnarmistök.

„Svo gerðum við mistök. Það kom léleg sending úr vörninni og tveir menn fóru í sama manninn þannig að Jón Vilhelm stendur einn og óvaldaður og klárar vel," sagði Tryggvi.

„Þetta voru sjálfsagt draumaúrslit fyrir KR-ingana, við ætluðum okkur að sjálfsögðu þrjú stig hérna á heimavelli því hérna eigum við ekki að tapa," sagði Tryggvi en enn á ný gengur Eyjaliðinu illa að spila vel tvo leiki í röð.

„Við erum svolítið óstöðugir eins og er. Ég veit ekki hverju er um að kenna og af hverju við erum svona þungir og þreyttir. Það þarf bara að setjast niður og ræða það. Við vorum flottir á móti Fylki og svo fjórum dögum seinna þá erum við mjög þungir. Við þurfum að setjast niður og athuga hvað er að gerast hjá okkur," sagði Tryggvi en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×