Enski boltinn

Ívar fer frá Reading en Brynjar fékk samningstilboð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar fagnar marki í leik með Reading.
Ívar fagnar marki í leik með Reading. Nordic Photos / Getty Images
Ívar Ingimarsson hefur leikið sinn síðasta leik með enska B-deildarfélaginu Reading en hann mun ekki gera nýjan samning við félagið. Brynjar Björn Gunnarsson er hins vegar að skoða samningstilboð frá Reading.

Ívar hefur verið fyrirliði Reading í mörg ár en hann kom til félagsins árið 2003. Hann meiddist illa í fyrra og hefur síðan þá átt erfitt með að festa sig í sessi í byrjunarliðinu á ný.

Ívar lék alls 276 leiki með félaginu og skoraði í þeim tólf mörk. Hann var valinn leikmaður ársins fyrir tímabilið 2006-7 en þá lék Reading í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Ívar Ingimarsson hefur þjónað þessu félagi gríðarlega vel og er mikilvægt að það komi fram,“ sagði Nick Hammond, yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading, á heimasíðu félagsins.

„Hann var besti leikmaðurinn okkar í ensku úrvalsdeildinni - bestu deild heims - og var máttarstólpi í liðinu þegar það naut mikillar velgengni. Við óskum honum og fjölskyldu hans alls hins besta í framtíðinni.“

Ívar er 33 ára gamall og ferli hans því langt í frá lokið. Hann hætti fyrir fáeinum árum að gefa kost á sér í íslenska landsliðið.

Brynjar Björn er nú að skoða samningstilboð frá Reading. „Hann hefur verið mikilvægur hluti af okkar liði og öðrum leikmönnum mikil fyrirmynd,“ sagði Hammond. „Hann er á þeim aldri að hann gæti viljað fá fleiri tækifæri í byrjunarliðinu og vonandi náum við samkomulagi sem er ásættanlegt fyrir alla “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×