Íslenski boltinn

Willum: Þeir létu hlutina vinna með sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Nettóvellinum skrifar
Mynd/Vilhelm
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki ósáttur við sína menn þrátt fyrir að liðið tapaði fyrir ÍBV á heimavelli í kvöld, 2-0.

„Það var erfitt að horfa upp á þessa byrjun. Fyrstu tíu mínúturnar voru okkur erfiðar," sagði Willum en Eyjamenn skoruðu bæði mörkin sín á fyrstu tíu mínútunum.

„Þeir völdu að spila með vindinum í fyrri hálfleik og voru meðvitaðir um aðstæður. Þeir mættu grimmir til leiks og skutu boltanum að marki þegar færið gafst."

„Upp úr því skoruðu þeir tvö mörk og náðu forskoti sem þeir unnu vel úr. Við áttum á brattann að sækja allan tímann."

Willum játar því að sínir menn hafi þó reynt en segir að það hafi verið erfitt við aðstæðurnar í Keflavík í kvöld.

„Það er erfitt að fá margar sendingar til að ganga upp í svona sterkum vindi. Ég er því alls ekki fúll út í liðið. Við reyndum að vinna okkur í gang en við mættum feykilega öflugu liði í kvöld. ÍBV var meðvitað um hvað þessi leikur myndi snúast um og létu hlutina vinna með sér. Það gera góð lið eins og ÍBV."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×