Íslenski boltinn

Kristján: Áttum von á svona leik

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Vodafonevellinum skrifar
Kristján Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/Daníel
Kristján Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/Daníel
Kristján Guðmundsson þjálfari Vals var búinn að undirbúa lið sitt undir varnarsinnað leikskipulag Fram og var mjög sáttur við þá þolinmæði sem leikmenn hans sýndu til að búa til það færi sem þurfti til að sækja stigin þrjú í kvöld.

„Við undirbjuggum okkur fyrir þennan leik vitandi það að andstæðingurinn myndi spila eins og hann gerði. Við færðum pressuna aðeins ofar í seinni hálfleik og færðumst nær með þeim færum sem fengum og svo tókst okkur að setja inn eitt mark með frískum fótum Andra og Ingólfs sem lögðu upp færið sem Guðjón rak smiðs höggið á,“ sagði Kristján.

„Menn mega ekki missa einbeitinguna gegn svona liði og halda því varnarhlutverki sem hver og einn leikmaður er með og þó stúkan vilji að menn færi sig framar og geri eitthvað meira nálægt markinu þá er þessi leikur þannig að menn þurfa að halda einbeitingu allan leikinn og fara alveg eftir uppskriftarbókinni. Menn voru mjög sterkir í andlegri framkvæmd á leiknum og skiluðu undirbúningnum alveg inn í leikinn,“ sagði Kristján sem var mjög létt eftir að landa stigunum þremur eftir tvö tapleiki í umferðunum á undan.

„Ég dreg ekkert úr því að þetta eru aðeins stærri þrjú stig en vanalega. Ég viðurkenni það,“ sagði Kristján að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×