Íslenski boltinn

Tryggvi þríbrotinn í andlitinu og á leið í aðgerð á fimmtudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.
Eyjamaðurinn Tryggvi Guðmundsson bar sig ótrúlega vel í dag þegar blaðamaður Vísis heyrði í honum en hann var þá mættur til vinnu daginn eftir að hafa þríbrotnað í andlitinu í 2-0 sigri ÍBV í Keflavík. Tryggvi var fluttur í sjúkrabíl til Reykjavíkur í hálfleik.

„Ég fór í nánari skoðun í morgun og það kom í ljós að ég er með þrjú brot í andlitinu, tvö í kinnbeininu þar sem höggið kom og svo aðra sprungu undir auganu," sagði Tryggvi Guðmundsson í samtali við Vísi.

„Mér líður samt þokkalega og er ekkert slappur. Mér finnst þetta því vera full dramatísk hvernig mér líður. Ég er mættur til vinnu og þetta er ekkert vesen," segir Tryggvi enda kalla Eyjamenn ekki þekktir fyrir að barma sér mikið.

„Það versta er að ég þarf að fara í aðgerð, hugsanlega á fimmtudaginn, vegna þess að kinnbeinið skaust aðeins inn við höggið og þeir eru smeykir um að það gæti ekki litið vel út í framtíðinni. Ég gæti orðið svolítið flatur í framan. Þeir vilja því fara inn og kippa því út aftur," sagði Tryggvi.

Það er ekki ljóst hversu lengi Tryggvi verður frá en hann vill alls ekki missa af mörgum leikjum enda að elta markamet Inga Björns Albertssonar sem er með átta marka forskot á Tryggva eftir flott mark Tryggva eftir 50 sekúndur í Keflavík í gær.

Tryggvi verður í ítarlegra viðtali í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×