Íslenski boltinn

Andri tognaður aftan á læri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andri í leik með ÍBV á síðustu leiktíð.
Andri í leik með ÍBV á síðustu leiktíð. Mynd/Anton
Andri Ólafsson, fyrirliði ÍBV, fór meiddur af velli gegn Keflavík í gær eftir að hafa tognað í vöðva aftan á læri. Óvíst er hvort hann verði með í næsta leik.

„Við þorðum ekki annað en að taka hann út af strax. Þetta geta verið hættuleg meiðsli,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, í samtali við Vísi í dag.

„Hversu alvarlegt þetta er verður að koma í ljós. Við munum láta reyna á þetta eftir 1-2 daga. Það var kalt í leiknum í gær og það gæti átt þátt í þessu,“ bætti hann við.

Heimir gerði fjórar breytingar á byrjunarliði sínu í gær frá síðasta leik en talsvert er um meiðsli og veikindi í leikmannahópi ÍBV.

Markvörðurinn Albert Sævarsson er veikur og þarf að hvílast í einhverja daga til viðbótar. Þá kinnbeinsbrotnaði Tryggvi Guðmundsson í leiknum í gær og gömul meiðsli tóku sig upp hjá Englendingnum Jordan Connerton. „Jordan fór í kviðslitsaðgerð í fyrra og fann eitthvað fyrir því,“ sagði Heimir.

Að síðustu missti Bryan Hughes af leiknum í Keflavík í gær. „Hann þurfti að skjótast til Englands en verður aftur kominn í næsta leik.“

ÍBV mætir Kjalnesingum í 32-liða úrslitum Valitor-bikarsins á miðvikudagskvöldið og svo tekur liðið á móti Víkingi í Pepsi-deildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×