Enski boltinn

Jelavic segir að United vilji fá sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nikica Jelavic, leikmaður Glasgow Rangers, segir að Manchester United hafi áhuga á sér og ætli að kaupa hann nú í sumar.

United er sagt reiðubúið að greiða þrettán milljónir punda fyrir Jelavic. Hann er króatískur sóknarmaður og hefur skorað átján mörk á tímabilinu, þrátt fyrir að hann var meiddur í rúma þrjá mánuði fyrr í vetur.

„Ég veit að United hefur áhuga,“ sagði Jelavic í samtali við fjölmiðla í heimalandinu. „Umboðsmaður minn hefur verið í sambandi við félagið en meira veit ég ekki um málið.“

„Umboðsmaðurinn segir að upphæðin sé í kringum þrettán milljónir punda en ég kom til Rangers fyrir fjórar milljónir. Félagið gæti því hagnast vel á þessu.“

Rangers getur tryggt sér skoska meistaratitilinn með sigri á Kilmarnock á sunnudaginn. „Ég ætla fyrst að hugsa um þessi mál í sumar. Mér líður vel hér og nýt hvers augnabliks.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×