Enski boltinn

Terry vill fá nýja leikmenn í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Terry, fyrirliði Chelsea, vill að félagið láti til sín taka á leikmannamarkaðnum í sumar og styrki liðið fyrir átök næsta tímabils í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea tapaði fyrir Manchester United um síðustu helgi í hálfgerðum úrslitaleik um enska meistaratitilinn og á fyrir vikið litla sem enga möguleika á titlinum í ár.

Félagið keypti Fernando Torres frá Liverpool fyrir 50 milljónir punda í janúar síðastliðnum, sem og varnarmanninin David Luiz frá Benfica fyrir 21 milljón.

„Ég tel að við ættum að styrkja okkur á öllum svæðum vallarins í sumar," sagði Terry. „Ég man að við vorum með stóran leikmannahóp þegar að Jose Mourinho var hér en samt bættust margir sterkir leikmenn í hópinn reglulega."

„Það varð til þess að félagið lenti í fjárhagsvandræðum og leikmenn voru óánægðir. Það voru um 11-13 leikmenn sem fengu ekki að spila hverju sinni. Þetta voru mjög góðir leikmenn og við höfum saknað þessa."

„Við þurfum að finna jafnvægi á milli þess sem við höfðum þá og hvernig leikmannahópurinn er í dag."

„Við misstum marga góða leikmenn í ár og kannski þurfum við stærri leikmannahóp. En það er ekki Roman (Abramovic, eiganda Chelsea) að kenna eða félaginu sjálfu. Það er ekki hægt að koma í orð hvað hann hefur gert fyrir þetta félag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×