Enski boltinn

Ferguson ætlar að gefa Hernandez langa hvíld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Javier Hernandez mun fá gott sumarfrí eftir að hafa spilað sitt fyrsta heila tímabil í ensku úrvalsdeildinni að sögn knattspyrnustjóra hans hjá Manchester United, Alex Ferguson.

Hernandez hefur skorað 20 mörk í öllum keppnum með United á tímabilinu og staðið sig vonum framar. Mörg af þessum mörkum hafa verið United gríðarlega mikilvæg en ef liðið nær stigi gegn Blackburn á morgun verður Englandsmeistaratitillinn tryggður.

Hernandez mun svo spila með landsliði Mexíkó á Gold Cup-keppninni í sumar en Ferguson segir að eftir hana muni Hernandez fá sína hvíld.

„Þegar Gold Cup-keppninni lýkur mun Javier fá almennilega hvíld. Framhaldið verður svo ákveðið þá,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla. „Hann virðist ekki vera þreyttur af frammistöðu hans í leikjum og á æfingum að dæma en við munum fylgjast áfram vel með honum.“

„Ef við náum þeim úrslitum sem við þurfum á morgun mun hann fá hvíld. Ef ekki þá spilar hann um næstu helgi,“ bætti Ferguson við.

Manchester United mætir svo Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu þann 28. maí næstkomandi og líklegt að Hernandez hafi stóru hlutverki að gegna í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×