Enski boltinn

Van Basten orðaður við Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Enskir fjölmiðlar fullyrða að Hollendingurinn Marco van Basten sé einn þeirra sem komi hvað helst til greina sem eftirmaður núverandi knattspyrnustjóra Chelsea, Carlo Ancelotti.

Líklegt er talið að Ancelotti muni hætta hjá Chelsea í sumar en liðinu tókst hvorki að verja enska meistaratitilinn né bikarmeistartitilinn í ár auk þess sem það féll úr leik í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Guus Hiddink og Andre Villas-Boas hafa báðir verið orðaðir við Chelsea en þeir eru báðir samningsbundinn á öðrum stöðum, ólíkt van Basten sem hefur ekki starfað í boltanum í tvö ár.

Hiddink stýrði Chelsea tímabundið áður en Ancelotti tók við en hann er nú landsliðsþjálfari Tyrklands. Hann mun hafa mælt með van Basten við Roman Abramovich, eiganda Chelsea.

Villas-Boas hefur náð frábærum árangri með portúgalska liðið Porto en liðið varð á dögunum meistari í heimalandinu og er komið í úrslitaleik Evrópudeild UEFA. Villas-Boas er fyrrum lærisveinn Jose Mourinho, sem Abramovich réði til Chelsea á sínum tíma.

Samkvæmt fregnum mun van Basten hafa þó úr meira en einu tilboði að velja þessa stundina. Hann hefur til að mynda verið orðaður við Sporting Lissabon og Fiorentina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×