Enski boltinn

Nítjándi meistaratitill Manchester United staðreynd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester United slapp fyrir horn gegn Blackburn í dag og tryggði sér nítjánda meistaratitil sinn í sögunni með 1-1 jafntefli.

United hefur þar með tekið fram úr Liverpool og er orðið sigursælasta félag Englands frá upphafi. Þetta er í tólfta sinn sem Sir Alex Ferguson, stjóri United, stýrir sínum mönnum til sigurs í ensku úrvalsdeildinni.

Eini leikmaðurinn sem hefur tekið þátt í öllum þessum sigrum er Ryan Giggs, sem í dag spilaði sinn 573. leik í úrvalsdeildinni og bætti þar með met David James.

Wayne Rooney var hetja United að þessu sinni en hann skoraði jöfnunarmark sinna manna úr vítaspyrnu á 72. mínútu. Brett Emerton hafði komið Blackburn yfir í fyrri hálfleik.

United byrjaði vel í leiknum en náði ekki að færa sér það í nyt. Nani átti til að mynda skalla í slá eftir fyrirgjöf Wayne Rooney.

Emerton kom Blackburn yfir á nítjándu mínútu leiksins í dag eftir vandræðagang í vörn United. Það reyndi eina mark fyrri hálfleiksins en Tomasz Kuszczak, markvörður United, mátti þakka fyrir að fá ekki annað klaufamark á sig skömmu áður en flautað var til hálfleiks.

Blackburn var svo nálægt því að komast tveimur mörkum yfir um miðbik síðari hálfleiksins þegar að Martin Olsson átti skalla í stöng eftir fyrirgjöf Emerton. Kuszczak stóð frosinn eftir á línunni og hefði aldrei átt möguleika á að verja.

Svo breyttist allt þegar um 20 mínútur voru eftir. Javier Hernandez fékk sendingu inn í teig og var sloppinn í gegn þegar að Paul Robinson kippti honum niður með slöku úthlaupi.

Phil Dowd, dómari leiksins, ráðfærði sig við aðstoðardómara sinn áður en hann dæmdi vítið sem Wayne Rooney skoraði úr. Leikmenn United voru brjálaðir áður en Dowd benti á punktinn og tóku heimamann við mótmælunum eftir dóminn.

En þegar uppi var staðið voru bæði lið sátt við úrslitin. Stigið dugði United til að tryggja titilinn og Blackburn virtist sátt við að fá stig úr leiknum þó svo að liðið sé enn í fallhættu.

Leikmenn liðanna létu boltann ganga sín á milli á eigin vallarhelmingi síðustu tíu mínútur leiksins og létu tímann einfaldlega renna út.

Niðurstaðan glæsileg fyrir Sir Alex Ferguson og Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×