Enski boltinn

Taylor tryggði Newcastle stig á brúnni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Chelsea missti í dag dýrmæt stig í baráttunni um annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar er liðið gerði 2-2 jafntefli við Newcastle á heimavelli.

Steven Taylor skoraði jöfnunarmark Newcastle í uppbótartíma með skalla af stuttu færi. Taylor var skilinn galopinn eftir á versta stað og eftirleikurinn var auðveldur.

Branislav Ivanovic kom Chelsea yfir með marki strax á annarri mínútu með skoti eftir hornspyrnu Frank Lampard.

Jonas Gutierrez jafnaði metin með skrautlegu marki aðeins átta mínútum síðar. Ryan Taylor tók aukaspyrnu fyrir utan teig en Gutierrez fékk boltann í sig þannig að hann breytti mikið um stefnu og hafnaði í markinu enda Petr Cech kominn í hitt hornið.

Alex virtist svo hafa tryggt Chelsea sigurinn þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir slakt úthlaup Tim Krul í marki Newcastle.

En þá kom Taylor til sögunnar og skoraði jöfnunarmarkið. Úrslitin þýða að Chelsea er með fjögurra stiga forystu á Arsenal í öðru sæti deildarinnar en síðarnfenda liðið getur minnkað muninn í eitt stig með sigri á Aston Villa í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×