Enski boltinn

West Ham fallið - Tottenham vann Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
West Ham féll í dag úr ensku úrvalsdeildinni eftir að liðið tapaði fyrir Wigan á útivelli, 3-2. Tottenham er komið upp í fimmta sæti deildarinnar eftir sigur á Liverpool, 2-0.

West Ham komst í 2-0 forystu í leiknum gegn Wigan með tveimur mörkum frá Demba Ba í fyrri hálfleik. Charles N'Zogbia minnkaði muninn á 57. mínútu og varamaðurinn Conor Sammon jafnaði svo leikinn fyrir Wigan ellefu mínútum síðar.

N'Zogbia tryggði svo Wigan mikilvæg þrjú stig í fallbaráttunni með sigurmarki leiksins á 94. minútu. West Ham er á botninum með 33 stig þegar ein umferð er eftir en Wigan er nú með 39 stig, rétt eins og Birmingham, og Blackpool. Blackburn og Wolves eru svo með 40 stig.

Liverpool verður líklega ekki með í Evrópudeildinni á næstu leiktíð eftir að liðið tapaði fyrir Tottenham á heimavelli. Rafael van der Vaart kom Tottenham yfir með laglegu skoti snemma leiks og Luka Modric tryggði liðinu svo sigur með marki úr umdeildri vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik.

Arsenal tapaði heldur óvænt fyrir Aston Villa á heimavelli, 2-1, og er því Chelsea öruggt með annað sætið í deildinni. City á nú möguleika að hirða þriðja sætið af Arsenal. Darren Bent skoraði bæði mörk Aston Villa með stuttu millibili snemma í leiknum.

Arsenal hefur aðeins unnið tvo leiki af síðustu tíu deildarleikjum sínum og ljóst að raddirnar um að liðið verði tekið í gegn í sumar eru orðnar ansi háværar.

Þá vann Fulham góðan útisigur á Birmingham, 2-0, en síðarnefnda liðið er í mikilli fallhættu sem fyrr segir. Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á í síðari hálfleik og var nálægt því að skora.

Úrslitin:

Arsenal - Aston Villa 1-2

0-1 Darren Bent (10.)

0-2 Darren Bent (14.)

1-2 Robin van Persie (88.)

Birmingham - Fulham 0-2

0-1 Brede Hangeland (4.)

0-2 Brede Hangeland (48.).

Liverpool - Tottenham 0-2

0-1 Rafael van der Vaart (8.)

0-2 Luka Modric (55.).

Wigan - West Ham 3-2

0-1 Demba Ba (11.)

0-2 Demba Ba (25.)

1-2 Charles N'Zogbia (56.)

2-2 Conor Sammon (67.)

3-2 Charles N'Zogbia (93.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×