Enski boltinn

Ferguson: Strákarnir gefast aldrei upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson fagnar í dag.
Alex Ferguson fagnar í dag. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, knattspyrnutstjóri Manchester United, hrósaði leikmönnum sínum mikið eftir að félagið tryggði sér í dag sinn nítjánda meistaratitil frá upphafi.

Þar með tók United fram úr Liverpool sem sigursælasta félag enskrar knattspyrnu frá upphafi. United gerði í dag 1-1 jafntefli við Blackburn eftir að hafa lent marki undir.

Ferguson vann sinn tólfta meistaratitil í dag og á hann ríkan þátt í þessum góða árangri. Hann segir að leikmenn eigi þó hrósið skilið.

„Liðið stóð sig frábærlega á tímabilinu,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla eftir leikinn. „Þetta er frábær dagur fyrir alla sem tengjast félaginu enda árangurinn frábær.“

„Þetta var ekki auðveldur leikur en við héldum áfram og það er einn af þeim kostum sem þetta lið býr yfir - það gefst aldrei upp.“

United mætir Blackpool í lokaumferðinni um næstu helgi en síðarnefnda liðið á í harðri fallbaráttu. Ferguson á von á því að umræðan um leikinn verði á þeim nótum hvort að United muni stilla upp sterku liði gegn Blackpool.

„Við munum gæta sanngirni og reyna að vinna leikinn. Við ætlum að gera okkar allra besta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×