Enski boltinn

Wenger: Við þurfum nýjan markvörð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að markvörðurinn Wojciech Szczesny verði frá næstu sex vikurnar eftir að hann meiddist í fingri í leik liðsins gegn Barcelona í vikunni.

Lukasz Fabianski er einnig meiddur og verður ekki meira með á leiktíðinni. Manuel Almunia stóð í markinu í leiknum gegn Barcelona eftir að Szczesny meiddist og stóð sig vel.

Wenger segir þó að liðið þurfi nú markvörð til að geta leyst Almunia af hólmi ef hann skyldi meiðast.

Vito Mannone hefur verið í láni hjá Hull City síðan í október og getur Arsenal fengið hann til baka til félagsins. Hann er hins vegar einnig meiddur og verður frá næstu sex vikurnar.

„Við þurfum að fá reyndan markvörð sem gæti leyst Almunia af hólmi. Allir aðrir eru meiddir og er það því algerlega nauðsynlegt."

Arsenal þyrfti að fá undanþágu frá enska knattspyrnusambandinu til að fá nýjan markvörð til félagsins þar sem að félagaskiptaglugginn er lokaður.

„Ég er með ákveðinn mann í huga sem að við gætum fengið á neyðarláni en það gefst ekki tími til að ganga frá því fyrir helgina."

Arsenal mætir Manchester United í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar á morgun.

Líklegt er að annað hvort James Shea, nítján ára, eða Damien Martinez, átján ára, verði á bekknum hjá Arsenal á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×