Enski boltinn

West Ham lánar Kieron Dyer til Ipswich

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kieron Dyer.
Kieron Dyer. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kieron Dyer, mun spila næsta mánuðinn með sínu gamla félagi Ipswich Town, eftir að West Ham samþykkti að lána hann til enska b-deildarliðsins. Dyer hefur aðeins spilað 13 leiki fyrir West Ham á tímabilinu og hefur verið langt frá sínu besta.

Newcastle keypti Kieron Dyer á sex milljónir punda frá Ipswich árið 1999 en hann var mjög óheppinn með meiðsli á St James' Park og var að lokum seldur til West Ham fyrir sömu upphæð árið 2007.

Dyer var ekki mikið heppnari með meiðsli á Upton Park og tvífótbrotnaði meðal annars í aðeins sínum þriðja leik með liðinu. Hann var frá í sautján mánuði eftir það en snéri aftur í janúar 2009. Eftir það hefur gengið illa hjá honum að vinna sér sæti í West Ham liðinu.

Dyer spilaði síðast fyrir Avram Grant 26. janúar síðastliðinn en gott gengi liðsins upp á síðkastið og frábær frammistaða Thomas Hitzlsperger hafa nánast lokað á öll hugsanleg tækifæri hans með aðalliði West Ham á næstunni.

Dyer mun því reyna að hjálpa til hjá sínu gamla félagi sem er eins og er í 16. sæti ensku b-deildarinnar. Paul Jewell hefur gert ágæta hluti á Portman Road síðan að hann tók við af Roy Keane í janúar. Dyer mun mæta aftur á Upton Park 9. apríl.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×