Erlent

Hrikalegar myndir af árásinni í Líbíu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Breta, Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, eru í þann mund að hittast til að ræða stöðuna í Líbíu. Síðar í dag munu þau svo hitta leiðtoga fleiri Evrópuríkja og Arabaríkja til að ræða hernaðaraðgerðir. Þær eru hrikalegar myndirnar sem sýna þegar herþota er skotin niður í borginni Benghazi í Líbíu í nótt. Vélin var á vegum uppreisnarmanna og talið er að það hafi verið hersveitir Gaddafis sem skutu vélina niður.

Á fundinum í dag verður rætt hvernig framfylgja á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi Líbýu. Þrátt fyrir yfirlýsingar Gaddafis stjórnarinnar um vopnahlé þrengja hersveitir hans að íbúum borgarinnar Benghazi sem uppreisnarmenn hafa enn á valdi sínu.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna segir að Gaddafi verði að verða við öllum skilyrðum Sameinuðu þjóðanna, hætta árásum á almenning, koma vatni og rafmagni aftur á í Benghazi og hleypa alþjóðlegum hjálparsamtökum til landsins til að sinna fólki í neyð. Líklegt er að á leiðtogafundinum í París verði teknar ákvarðanir um fyrstu hernaðaraðgerðir gegnd Gaddafi stjórninni og er jafnvel búist við að þær hefjist á næstu klukkustundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×