Keflvíkingar urðu í gær fyrsta íslenska liðið til að vinna Evrópusigur í Futsal þegar þeir lögðu sænska liðið í Vimmerby, 10-6, en keppni í G-riðli undankeppni Evrópukeppninnar í Futsal (Futsal Cup) hófst þá á Ásvöllum.
Keflvíkingar byrjuðu betur gegn sænska liðinu og leiddu í leikhlé með tveimur mörkum gegn engu. Heimamenn byrjuðu svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og sýndu frábæra spilamennsku með Guðmund Steinarsson og Magnús Þorsteinsson í fararbroddi.
Á skömmum tíma höfðu þeir skorað fjögur mörk og breytt stöðunni í 6-0. Svíarnir voru ráðalausir á þessum kafla en gáfust ekki upp. Þeir breyttu um varnaraðferð og náðu að minnka muninn í 6-3 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. En Keflvíkingar, með góða blöndu af reyndum köppum og ungum leikmönnum, voru ekkert á því að gefa eftir og lönduðu öruggum sigri, 10-6.
Magnús Þorsteinsson skoraði fernu fyrir Keflavík í leiknum, Guðmundur Steinarsson var með tvö mörk líkt og Bojan Stefan Ljubicic en tvö síðustu mörkin skoruðu þeir Viktor Hafsteinsson og Lukas Males.
Önnur umferðin verður leikin í dag, sunnudag og fara allir leikirnir fram á Ásvöllum. Eindhoven og Vimmerby mætast kl. 15:00 og kl. 17:30 leika svo Keflvíkingar gegn KB France. Það kostar 500 krónur inn á leikdag og 1.000 krónur kostar passi sem gildir á alla leiki mótsins.
Magnús með fernu þegar Keflavík vann fyrsta Evrópusigurinn
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



Bradley Beal til Clippers
Körfubolti


Eyjakonur gjörsigruðu Gróttu
Fótbolti

Arnar Grétarsson tekinn við Fylki
Fótbolti



