Erlent

Telur að fjölga megi spilavítum

spilasalur Í Danmörku eru starfrækt sex spilavíti með leyfi stjórnvalda, sem telja rúm til að úthluta fjórum leyfum í viðbót. Nordicphotos/Getty images
spilasalur Í Danmörku eru starfrækt sex spilavíti með leyfi stjórnvalda, sem telja rúm til að úthluta fjórum leyfum í viðbót. Nordicphotos/Getty images

Dómsmálaráðuneyti Danmerkur hefur sent út tilkynningu um að rúm sé fyrir allt að fjögur ný spilavíti í landinu. Kæmu þau til viðbótar við þau sex leyfi stjórnvalda fyrir rekstrinum.

Í umfjöllun Berlingske Tidende kemur fram að eftir yfirferð á lagaumgjörð sem varðar fjárhættuspil hafi stjórnvöld auglýst að úthluta megi leyfi fyrir einu til tveimur spilavítum sem rekin yrðu á landi og tveimur sem starfrækt yrðu í áætlunarferjum.

Berlingske segir að siglingafyrirtækið DFDS, sem siglir milli Kaupmannahafnar og Óslóar og milli Esbjerg og Harwich, fylgist af áhuga með framþróun mála. Um leið hefur blaðið eftir Erik Jensen, talsmanni spilavítageirans í Danmörku og framkvæmdastjóra Casino Copenhagen, að stjórnvöld hefðu ekki getað valið verri tímapunkt til þess að auka samkeppni meðal spilavíta.

Casino Copenhagen, sem er stærsta spilavíti landsins, hefur verið rekið með tapi síðustu ár og þótt ekki liggi enn fyrir tölur vegna síðasta árs, er búist við að niðurstaðan verði enn verri en næstu tvö ár á undan. Svipuð staða er sögð uppi hjá fleiri spilavítum.

„Ég hef rætt við menn hjá flestum spilavítum landsins og þeir lýsa stórum áhyggjum af því að nú eigi að fara að fjölga á þegar aðþrengdum markaði," er haft eftir Erik Jensen. - óká



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×