Konchesky ætlar að vinna titla með Liverpool

Paul Konchesky, nýr leikmaður Liverpool, stefnir að því að vinna titla með félaginu á næstu misserum.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, keypti Konchesky frá sínu gamla félagi, Fulham, nú á dögunum.
„Ég er mjög spenntur fyrir félaginu. Ég get ekki beðið eftir því að fá að byrja og ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir," sagði Konchesky í viðtali á heimasíðu Liverpool.
„Ég vil vinna titla. Ég hef trú á því að þetta félag hafi alla burði til þess og vonandi byrjum við strax á þessu tímabili."
„Ég þekki stjórann vel og hann mig sömuleiðis. Ég naut þess að vinna með honum hjá Fulham í tvö og hálft ár. Hann stóð sig virkilega vel þar og vonandi náum við enn betri árangri hjá Liverpool."