Innlent

Fór í skyndi með Ellu Dís á spítala í London

Móðir Ellu Dísar segir allt benda til þess að hún sé komin með lifrarbilun
Móðir Ellu Dísar segir allt benda til þess að hún sé komin með lifrarbilun

Ragna Erlendsdóttir fór í skyndi með dóttur sína, Ellu Dís, til Englands í gærkvöldi. Ragna var ósátt við vinnubrögð lækna á Barnaspítala Hringsins og ákvað, án samráðs við íslenska lækna, að fara með dóttur sína á spítala í London.

Á laugardag fékk Ragna niðurstöður úr blóðprufum sem teknar voru hjá Ellu Dís og segir hún að þar hafi allt bent til þess að dóttir hennar sé komin með lifrarbilun. Ragna upplifði sig strax þá mjög hjálparlausa og ákvað að fara með Ellu Dís á spítala í London ef hún fengi ekki þá aðstoð sem hún óskaði eftir hjá læknum hér á landi.

„Mér finnst bara svo leiðinlegt að þeir hafa oftar en einu sinni séð að ég hafi rétt fyrir mér um hana en neita alltaf að hlusta á mig og gera prufur sem ég bið um. Ég skil ekki svona áhugaleysi við lítið veikt barn. Alveg eins og seinustu helgi hafði ég 100% rétt fyrir mér um hvað var að gerast en ekkert tekið mark á mér fyrr en hún var nærri dáin og ég á hnjánum að grátbiðja um blóðprufu," segir Ragna á Facebook-síðu sinni.

Rúm vika er síðan Ella Dís missti meðvitund eftir að sódíummagnið fór undir hættumörk. Þá fékk hún sódíum í æð á Barnaspítala Hringsins og komst til meðvitundar skömmu síðar.

Ragna birti neyðarkall á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hún óskaði eftir fjárhagsaðstoð til að komast með flugi þá um kvöldið til London. Skömmu síðar hafði safnast nægt fé til að þær mæðgur gætu flogið út. Þar komu þær hins vegar að lokuðum dyrum barnaspítalans Great Ormond Street Hospital þar sem þar er engin bráðamótttaka en Ragna hafði ekki haft samband við lækna þar áður en hún útskrifaði dóttur sína af Barnaspítalanum. Ragna fór þá með dóttur sína á annan spítala í London, með bráðamótttöku, og fengu þær þar inni undir morgun, eftir því sem fréttastofa kemst næst.

Ella Dís er tæplega fimm ára gömul en þegar hún var á öðru aldursári fór að bera á lömun í höndum sem ágerðist hratt og eftir mikla þrautargöngu hjá læknum komust þeir að þeirri niðurstöðu að hún væri með sjálfsofnæmi.

Tenglar:



Heimasíða Ellu Dísar



Facebook-síða Ellu Dísar






Tengdar fréttir

„Ég hef aldrei séð barnið mitt svona hræðilega þjáð“

„Hún er enn meðvitundarlaus, í einhvers konar dái," segir Ragna Erlendsdóttir, móðir Ellu Dísar sem liggur alvarlega veik á Barnaspítala Hringsins. Ella Dís fékk magapest fyrir um tveimur vikum og hefur hún ekki náð að jafna sig. Ástæða veikindanna er þó enn ókunn. „Læknarnir komust að því að hún var hættulega lág í sódíum og vilja meina að hún sé jafnvel með heilabjúg, þess vegna sé hún svona meðvitundarlaus og sé ekki með okkur," segir Ragna.

Ella Dís er komin til meðvitundar

Ella Dís opnaði augun seint í gær og er komin til meðvitundar. „Mér fannst hún samt ekki alveg þekkja mig en þetta er skref fram á við og ég vona svo og bið að framhaldið sé aðeins upp á við," segir Ragna Erlendsdóttir, móðir Ellu Dísar, sem lá meðvitundarlaus á Barnaspítala Hringsins. Eins og Vísir sagði frá í gær var ástand Ellu Dísar mjög alvarlegt en svo virðist sem líðan hennar sé betri í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×