Erlent

Clinton fundaði með Kim Jong-il

Guðjón Helgason skrifar
Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, átti í dag fund með Kim Jong-il, hinum umdeilda leiðtoga Norður-Kóreu.

Clinton kom í óvænta heimsókn til Norður-Kóreu í morgun. Ekkert var gefið upp í byrjun hverja hann myndi ræða við og þá um hvað. Talið var að hann væri að reyna að tryggja lausn tveggja bandarískra sjónvarpsfréttakvenna sem handteknar voru í Norður-Kóreu og sakaðar um að hafa ferðast ólöglega til landsins. Þær voru dæmdar í tólf ára þrælkunarvinnu. Einnig var talið að fyrrverandi forsetinn myndi reyna að liðka um fyrir viðræðum vegna kjarnorkudeilu Norður-Kóreumanna við vesturveldin og nágrannaríki.

Fulltrúi Hvíta hússins sagði í morgun að Clinton færi til Norður-Kóreu á eigin vegum og væri ekki þar sem fulltrúi bandarískra stjórnvalda. Sérfræðingar í alþjóðamálum sem breska ríkisútvarpið BBC ræddi við telja þó nær útilokað að forsetinn fyrrverandi hafi farið í slíka ferð án þess að hafa fullan stuðning frá Hvíta húsinu.

Clinton átti síðan í dag fund með Kim Jong-il, leiðtoga Norður-Kóreu, en fregnir hafa borist síðustu mánuði af því að hann sé heilsutæpur og undirbúi að eftirláta syni sínum völdin í landinu.

Ríkisfréttastöðin í Norður-Kóreu birti myndir af fundi Clintons og Kim Jong-il og var sagt að fjölmörg mál hafi verið rædd án þess að nánar væri greint frá því hvað þeim hafi farið á milli. Clinton hafi borið Kóreuleiðtoganum skilaboð frá Barack Obama Bandaríkjaforseta. Því vísar Hvíta húsið á bug.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×