Erlent

Leigubílstjóri handtekinn vegna lyga um kornabarn

Myndir af stúlkunni bræddu íbúa New York borgar
Myndir af stúlkunni bræddu íbúa New York borgar

Leigubílsstjóri sem kom ungabarni á slökkvistöð í New York á fimmtudag og sagði að barnið hefði verið skilið eftir í bílnum hjá sér hefur verið handtekinn. Hann er ákærður fyrir að skálda upp söguna til að hjálpa fjölskyldu að losna við barnið.

Búið er að koma sex mánaða gamalli stúlkunni í hendur fósturforeldra eftir stutta dvöl á St. John's sjúkrahúsinu í Queens.

Klever Sailema leigubílsstjóra var fagnað sem góða samverjanum eftir að hann kom barninu á slökkviliðsstöðina. Íbúar borgarinnar hafa velt sér upp úr málinu eftir að krúttlegar myndir af stúlkunni birtust í fjölmiðlum.

Á fréttavef CNN segir að móðirin sé 14 ára gömul og faðirinn næstum tvöfalt eldri.

Leigubílsstjórinn sagði lögreglu að maðurinn sem skildi barnið eftir hefði litið út fyrir að vera taugaveiklaður. Hann hefði komið inn í bílinn með barnið og bleyjupoka. Síðan hefði hann horfið eftir að biðja bílstjórann um að stöðva svo hann gæti hringt úr símaklefa. Upplýsingarnar sem Sailema gaf voru nægar til að gerð var skyssa af manninum sem lögregla dreifði.

Enn hefur ekki verið gefið upp hvað varð til þess að lögreglan komst að hinu sanna í málinu. Fjölskylduvinur segist hafa farið með unglingsmóðurina til lögreglu á föstudag eftir að hann sá hana grátandi á götu þar sem hún hélt á dagblaði með mynd af dóttur sinni. Stúlkan mun hafa sagt að hún hefði hlaupist á brott eftir heiftarlegt rifrildi við föðurinn. Hún hefði þó ekki viljað skilja barnið eftir.

Saul Navarro húsvörður í blokkinni sem fjölskyldan bjó í í Bronx sagði að faðir stúlkunnar hefði virst úrræðalaus og kvartað yfir því að móðirin hefði hlaupist á brott. Hann hefði því útvegað honum barnapíu en hún hefði einungis getað passað nokkra daga.

Leigubílsstjórinn á í ástarsambandi við systur föðursins. Lögreglan telur að hún hafi fengið hann til að hjálpa fjölskyldunni að losna við barnið.

Sailema var ákærður fyrir að gefa ranga skýrslu og hann og kærastan voru ákærð fyrir glæpsamlegt athæfi.

Móðir barnsins mun líklega ekki verða ákærð vegna aldurs, en lögreglan leitar enn föðurins sem er 27 ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×