Erlent

Varað við frekara óveðri í Kína

Kínverji tekur eigur sínar í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína á meðan lögregla heldur farþegum frá veginum að lestarstöðinni. Lestarstöðvar eru troðfullar af fólki sem reynir að komast í þær fáu lestir sem ganga.
Kínverji tekur eigur sínar í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína á meðan lögregla heldur farþegum frá veginum að lestarstöðinni. Lestarstöðvar eru troðfullar af fólki sem reynir að komast í þær fáu lestir sem ganga. MYND/AFP

Kínversk stjórnvöld vara almenning í landinu við frekara óveðri um leið og reynt er að takast á við verstu vetrarveður í meira en hálfa öld.

Næstum tvær milljónir Kínverja eru nú í neyðarskýlum vegna óvenjumikilla kulda undanfarna daga. Stjórnvöld í Kína vara almenning við frekari vetrarhörkum á næstunni.

Enn kyngir niður snjó í sunnanverðu Kína. Ástandið hefur ekki verið jafn slæmt í hálfa öld. Heilu borgirnar eru rafmagnslausar. Bæði hafa raforkuver ekki við og svo hafa raflínur hrunið undan snjóþunganum. Þúsundir hermanna hafa verið sendir út til að hreinsa klaka af raf- og símalínum.

Rúmlega 220 þúsund fjölskyldur hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir að þök hafa hrunið undan ísþunga. Tæplega tvær milljónir manna eru í neyðarskýlum.

Uppskerubrestur og erfiðleikar við aðflutninga hafa þegar valdið miklum verðhækkunum á matvöru þannig að sumar vörur hafa allt að þrefaldast í verði.

Lestarstöðin í Kanton er enn yfirfull. Þegar mest var voru um átta hundruð þúsund manns á stöðinni að reyna að troða sér í þær fáu lestir sem gengu. Stjórnvöld hafa hvatt fólk til að hætta við ferðir.

En nýársfríið, þegar kínverska nýárið gengur í garð, er eina tækifæri milljóna verkamanna við suðurströndina til að heimsækja fjölskyldur sínar. Kolanámur hætta gjarnan vinnslu í nokkra daga yfir nýársdagana en stjórnvöld hafa skipað þeim að halda áfram framleiðslu núna til að koma í veg fyrir að raforkuver verði uppiskropa með kol á versta tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×