Erlent

Kerstin Fritzl til með­vitundar

Kerstin Fritzl, sem haldið var nauðugri í kjallara á heimili föður síns í 18 ár, er komin til meðvitundar. Frá þessu greindu spítalayfirvöld í Austurríki í dag en sögðu jafnframt að hún væri enn nokkuð veik.

Kerstin var flutt á sjúkrahús í apríl en um leið komst upp um hrottafengin brot föður hennar Josefs, sem haldið hafði dóttur sinni Elísabetu fanginni í 24 ár og getið henni sjö börn. Kerstin var elst þeirra.

Josef Fritzl hefur viðurkennt að hafa naugðað Elísabetu dóttur sinni ítrekað og getið henni börnin sjö. Eitt barnanna lést og þrjú þeirra bjuggu með móður sinni í kjallaranum. Málið vakti heimsathygli þegar það komst upp í apríl en það voru veikindi Kerstinar sem komu lögreglu á sporið.

Læknar Kerstin neituðu að staðfesta nokkuð um það að hún hefði hitt móður sína og systkini sín fimm á ný en blaðamannafundur hefur verið boðaður á morgun vegna málsins.

Josef Fritzl hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að upp komst um málið og síðastliðinn föstudag var það framlengt um tvo mánuði. Rannsókn lögreglu stendur enn yfir en eftir á að taka skýrslu af Elísabetu og börnunum, en þau njóta nú sálfræðiaðstoðar vegna hörmunganna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×