Erlent

Kína mótmælir verðlaunum Dalai Lama

Angela Merkel kanslari Þýskalands reitti yfirvöld í Kína til reiði þegar hún hitti Dalai Lama í Berlín 23. september síðastliðinn.
Angela Merkel kanslari Þýskalands reitti yfirvöld í Kína til reiði þegar hún hitti Dalai Lama í Berlín 23. september síðastliðinn. MYND/Getty Images
Stjórnvöld í Peking andmæltu í dag áformum Bandaríkjaþings um að heiðra búddaleiðtogann Dalai Lama. Tíbeska útlaganum verður í þessum mánuði veitt gullmedalía bandaríska þingsins, en það er æðsta borgaralega viðurkenning landsins. Kína lítur á Dalai Lama sem aðskilnaðarsinna. Liu Jianchao talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði að Kína væri alfarið á móti því að Dalai fengi orðuna. Kína mótmæli því að málefni Dalai Lama séu notuð til að hlutast til um innanríkismál í Kína. Fulltrúaþing Bandaríkjanna ákvað 13. september að veita búddamúnknum viðurkenninguna. Þrátt fyrir kröftug mótmæli hafa erlendir leiðtogar ítrekað hætt á að reita stjórnvöld í Kína til reiði vegna mannréttindabrota í Tíbet. Kínverjar hafa ráðið ríkjum í landinu frá árinu 1951 þegar kommúnistastjórnin réðist inn í Tíbet og tók völd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×