Erlent

Unglingaglæpir vaxandi vandamál í Kína

Glæpir ungmenna undir lögaldri eru vaxandi vandamál í Kína. Fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á undanförnum áratug og nú koma unglingar við sögu í tveimur af þremur dómsmálum í Bejing.

Vandamálið er ein af skuggahliðum gífurlegs hagvaxtar og þennslu í landinu á þessu tímabili. Jafnframt fer aldur unglinganna sífellt lækkandi og glæpirnir sem þeir fremja verða sífellt fjölbreyttari.

Breyting á þjóðfélagsþáttum, stefnan um eitt barn á hverja fjölskyldu og internetið eru sögð undirrótin að vaxandi glæpum meðal unglinga. Skuldinni er einnig skellt á upplausn innan þeirra hundruða þúsunda af fjölskyldum þar sem foreldrar halda úr sveit í borgir og skilja börn sín eftir í umsjá eldri ættingja.

Áætlað er að fjöldi glæpamanna undir lögaldri í Kína hafi farið úr 33.000 árið 1998 og í yfir 80.000 í ár. Glæpirnir eru allt frá ránum og þjófnuðum upp í ýmis fjársvik gegnum netið. Oft á tíðum mynda unglingarnir með sér glæpagengi og fremja glæpi sína í hópum.

Yfirvöld í Kína hafa miklar áhyggjur af þessari þróun einkum þar sem í ljós hefur komið að mörg af þessum gengjum fremja glæpi sína að því er virðist án nokkurs tilgangs annars en að valda skaða eða sársauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×